Líðan og jafnréttismál í orkugeiranum 2024

7. mars 2025

⚡️ Niðurstöður fjórðu könnunar Kvenna í orkumálum um líðan starfsfólks og stöðu jafnréttismála ⚡️

Könnunin var framkvæmd af Prósent og styrkt af RARIK, sem við þökkum kærlega fyrir stuðninginn. Gögnum var safnað frá maí til ágúst 2024 og gefa niðurstöður mikilvægar upplýsingar um upplifun starfsfólks, stöðu jafnréttismála og möguleika til úrbóta í geiranum.

Könnunin var send á 12 stærstu orku- og veitufyrirtæki landsins, og svöruðu alls 987 einstaklingar, sem jafngildir 59% svarhlutfalli. Ekki bárust næg svör frá þeim sem skilgreina sig utan kynjatvíhyggju og því er ekki hægt að birta niðurstöður fyrir þann hóp.

Helstu niðurstöður

  • Starfsánægja er almennt há.
  • Sveigjanlegur vinnutími virðist vera að aukast meðal starfsfólks.
  • Hár starfsaldur og hátt menntunarstig einkenna orkugeirann.
  • Konur upplifa almennt meiri hvatningu og tækifæri til starfsþróunar en karlar. Þessi munur hverfur eftir 55 ára aldur.
  • 27% starfsfólks hefur orðið fyrir einhvers konar misrétti, svo sem að vera haft útundan, hunsað í faglegu samhengi eða að annað starfsfólk hafi fengið hrós fyrir þeirra vinnu.
  • Konur verða frekar fyrir misrétti en karlar, en tilfellum hefur fækkað á milli kannanna.
  • 8% starfsfólks segist hafa orðið fyrir einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni.
  • Hlutfall starfsfólks sem telur fyrirtæki sitt vinna markvisst að jafnréttismálum hefur lækkað lítillega frá síðustu könnun.
  • 8 af 10 vita hvert þau eiga að leita innan fyrirtækisins ef neikvæð atvik koma upp. Engin breyting hefur orðið á þessu milli ára sem bendir til tækifæra til úrbóta.
  • 27% treysta ekki nægilega þeim sem taka við upplýsingum um neikvæð atvik né ferlinu sem fylgir í kjölfarið.
  • Konur taka að meðaltali 10 mánuði í fæðingarorlof á móti 3 mánuðum hjá körlum.

Hér er hægt er að skoða helstu niðurstöður könnunarinnar og bera þær saman við niðurstöður frá 2021 og 2022.

Í niðurstöðum kemur fram að enn eru tækifæri til staðar til að bæta vinnuumhverfið, sérstaklega þegar kemur að trausti á ferlum sem snúa að meðhöndlun neikvæðra atvika og jafnréttisstarfi innan fyrirtækja.

Við vonum að niðurstöðurnar verði nýttar til að skapa enn betra vinnuumhverfi fyrir öll í orku- og veitugeiranum.


crossmenuarrow-downarrow-leftarrow-right linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram