Samþykktir Kvenna í orkumálum

1 gr.
Félagið heitir Konur í orkumálum.

2.gr.
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

3. gr.
Tilgangur félagsins er að 

  • efla þátt kvenna í orkumálum og auka áhrif þeirra í orku- og veitugeiranum
  • styrkja tengsl þeirra svo og að stuðla að menntun og fræðslu kvenna er varðar orkumál
  • vekja athygli á stöðu jafnréttismála og mikilvægi fjölbreytileika innan orku- og veitugeirans  
  • stuðla að bættri vinnustaðamenningu og jöfnum tækifærum allra

4.gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að vekja máls á jafnréttismálum við þar til gerða aðila, í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, gera kannanir, halda fundi, samkomur og viðburði, í hvers kyns formi.

5. gr.
Aðild að félaginu er opin öllum sem áhuga hafa á að taka þátt í félaginu og efla starf þess í samræmi við tilgang þess. Ósk um aðild skal send rafrænt í gegnum heimasíðu félagsins til umfjöllunar og afgreiðslu hjá stjórn. Stjórn skal halda félagaskrá yfir félagsmenn þar sem skráð er nafn, heimilisfang og kennitala félagsmanna. Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt til stjórnar með sannanlegum hætti og tekur hún strax gildi nema annars sé óskað.

6. gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið, þó skal fyrsta reikningstímabil félagsins vera frá stofnun þess til ársloka.

7. gr.
Aðalfund skal halda fyrir lok apríl  ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðeins félagsmenn hafa rétt til setu á aðalfundi og atkvæðisrétt. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
4. Breytingar á samþykktum félagsins
5. Ákvörðun félagsgjalds, sbr. 10. gr.
6. Kosning stjórnar
7. Kosning skoðunarmanna
8. Önnur mál

8. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 7 félagsmönnum, formanni og 6 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til tveggja ára í senn. Fyrsta stjórn skal kjörin á stofnfundi til næstu tveggja ára. Einnig er heimilt að kjósa allt að 3 varamenn. Formaður boðar til funda en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

9. gr.
Stjórn félagsins ber ábyrgð á rekstri og fjárreiðum félagsins og fer að öðru leyti með málefni félagsins á milli aðalfunda í samræmi við samþykktir þess. Stjórn kemur fram fyrir hönd félags og ritar firma þess. Stjórn getur falið tilteknum stjórnarmönnum heimild til ritunar firma.

10. gr.
Ákvörðun um félagsgjöld skal tekin á aðalfundi fyrir ár hvert. Einnig er heimilt að fjármagna starfsemi félagsins og viðburði á vegum þess með styrkjum og/eða fjárframlögum.

11. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Barnaspítala Hringsins.​

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins.

Reykjavík 11.03.2016

crossmenuarrow-down linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram