Hildur Harðardóttir, formaður KíO, sagði á afmælismálþingi RARIK á dögunum gríðarleg tækifæri felast í því fyrir fyrirtæki í orkugeiranum að leggja áherslu á fjölbreyttan starfshóp.

Frá afmælismálþingi RARIK í Hofi á Akureyri. Mynd: RARIK

RARIK efndi til afmælismálþinga á fjórum stöðum á landinu í tilefni af 75 ára afmæli fyrirtækisins undir yfirskriftinni Rafmagnið í lífi okkar – hreyfiafl landsbyggðar til framtíðar og var Hildur þar á meðal framsögufólk.
Á málþingunum var fjallað um helstu áskoranir raforkukerfisins um þessar mundir, eins og til dæmis orkuskipti, loftlagsmál, afhendingaröryggi, verðskrár, jafnrétti kynja og sjálfbærni.
Í erindi Hildar kom fram að rannsóknir sýni að fjölbreytni í starfshóp fyrirtækja, bæði hvað varðar kyn og annan breytileika, skilar sér í aukinni nýsköpun, skilvirkari stjórnarháttum, sterkari fjárhag og betri ákvarðanatöku sem axlar ábyrgð á loftslagsvandanum. Fjárfesting í kynjafjölbreytileika er því fjárfesting í sjálfbærni sem nær út fyrir fyrirtækin sjálf og til samfélagsins.

Hér má sjá erindi Hildar.

Hildur var ekki ein úr stjórn KíO sem fluttu erindi á málþingunum. Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir þróunarstjóri nýsköpunar og greininga hjá RARIK situr í stjórn KíO og fjallaði um uppbyggingu verðskrár og hvernig hún verði að endurspegla kostnað við flutning raforku.

Aðrir sem fluttu erindi á málþingunum voru Helga Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs RARIK og Kjartan Rolf Árnason deildarstjóri kerfisstýringar RARIK ásamt ávörpum frá forstjóra RARIK, Magnúsi Þór Ásmundssyni, og ráðstefnustjóranum og rithöfundinum Bergi Ebba Benediktssyni. Nánar um málþing RARIK og hlekkir á erindin má sjá á heimasíðu fyrirtækisins.

Silja Rán flytur erindi sitt.

Konur í orkumálum þakka RARIK fyrir að fá að taka þátt í þessum glæsilega afmælisáfanga og fyrir tækifærið að fá að segja frá félaginu vítt og breitt um landið ásamt því að minna á mikilvægi þess að vinna saman að jafnrétti í orkumálum.

Sumarganga Kvenna í orkumálum fór að þessu sinni fram á hinu undurfagra Hengilssvæði síðastliðinn fimmtudag. Birna Bragadóttir forstöðukona Elliðaárstöðvar og stjórnarkona KíO skipulagði gönguna og leiðsagði ásamt samstarfskonum hjá OR-samstæðunni. Gengið var að Bræðrabunu þar sem orkukonur gæddu sér á nestispakka og nutu góðrar samveru og náttúrufegurðar. Jarðsaga svæðisins er merkileg og því vel við hæfi að fá fróðleiksmola um svæðið frá Írisi Evu Einarsdóttur jarðfræðingi hjá OR.

Veðrið var milt og fallegt með smá rigningarskúr í lokin sem kom ekki að sök því boðið var upp á dýrindis heitt súkkulaði og Stroh eftir velheppnaða göngu.

Konur í orkumálum þakka félagsfólki fyrir frábæra samveru og hlökkum til komandi starfsárs!

Sumarganga Kvenna í orkumálum fer fram á hinu stórbrotna Hengilssvæði sem er rétt utan athafnasvæða Hellisheiðavirkjana Orku náttúrunnar.

Vinsamlega skráið þátttöku hér:
https://forms.gle/DaFGPLY8JzcoBa6D7

Hittumst við Jarðhitasýninguna fimmtudaginn 18. ágúst kl. 17:00. Gangan sjálf tekur um 1,5 tíma. Boðið verður upp á nestispakka og að göngu lokinni heitt kakó. Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í gönguskóm og hafa regnjakka, húfu og vettlinga með í för. Þau sem vilja grípa með sér göngustafi.

Við hvetjum ykkur til að spara kolefnissporið og sameinast í bíla.
Það tekur um 30 mínútur að keyra miðsvæðis Reykjavíkur á Hellisheiðina.
Starfskonur ON og OR munu leiða gönguna og fræða okkur um svæðið, orkunýtinguna og landgræðsluna.

Hengilssvæðið er staðsett á virku gosbelti og býður upp á flest það sem prýðir íslenska náttúru: hvera- og gígasvæði, fjölbreytt gróðurfar, ár, stöðuvötn og áhugavert landslag.
Hengilssvæðið er vinsælt útivistarsvæði og eru um 110 km af merktum gönguleiðum á svæðinu sem OR og ON hefur haft veg og vanda í samstarfi við sveitastjórnir að leggja og viðhalda.

Frá vinstri: Harpa Pétursdóttir fráfarandi formaður, Hildur Harðardóttir nýr formaður, Dagný Ósk Ragnarsdóttir ný stjórnarkonar, Lovísa Árnadóttir stjórnarkona, Svandís Hlín Karlsdóttir stjórnarkona, Amel Barich ný varakona í stjórn, Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir ný stjórnarkona og Ásgerður K. Sigurðardóttir ný stjórnarkona. Á myndina vantar Birnu Bragadóttur nýja stjórnarkonu og Ásdísi Benediktsdóttur varakonu í stjórn.

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Kvenna í orkumálum þann 5. maí sl. Hildur Harðardóttir, verkefnisstjóri á sviði Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, var kjörin formaður og tekur Hildur við af Hörpu Pétursdóttur, stofnanda félagsins og formanni frá árinu 2016.

Lovísa Árnadóttir hjá Samorku og Svandís Hlín Karlsdóttir hjá Landsneti voru endurkjörnar í stjórn til næstu tveggja ára. Sex nýjar stjórnarkonur taka sæti, þær Ásgerður K. Sigurðardóttir hjá Landsvirkjun, Birna Bragadóttir hjá Orkuveitunni, Dagný Ósk Ragnarsdóttir hjá Landsvirkjun og Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir hjá RARIK. Varamenn eru Amel Barich hjá GEORG og Ásdís Benediktsdóttir hjá ÍSOR.

Konur í orkumálum er félag þeirra sem starfa í orku- og veitugeiranum á Íslandi eða hafa áhuga á honum. Félagið er opið öllum sem telja tilgang félagsins sig varða og vilja stuðla að framgangi félagsins. ​Aðildin er öllum opin enda eru það hagsmunir allra að jafna hlutfall kynjanna í geiranum.​​​

​Í dag kemur út skýrsla Kvenna í orkumálum um stöðu kvenna í orkugeiranum en skýrslan er unnin af Ernst&Young fyrir félagið. Þetta er önnur skýrslan sem Konur í orkumálum gefa út sem fjallar um stöðu kvenna innan íslenska orkugeirans. Fengnar voru upplýsingar um helstu ákvörðunar- og áhrifavaldastöður stærstu orkufyrirtækja landsins.

Niðurstöður skýrslunnar sýna margar hverjar jákvæða þróun í kynjahlutfalli fyrirtækjanna, en staðfesta þó að enn er langt í land. Niðurstöður sýna t.a.m. jafnt kynjahlutfall í stjórnum stærstu fyrirtækjanna sem og meðal stjórnarformanna. Skýrslan sýnir einnig fjölgun kvenkyns framkvæmdar- og deildarstjóra en hægan vöxt á fjölda kvenkyns forstjóra. Þá sýna niðurstöður einnig að Ísland er framarlega í samanburði við önnur lönd.

Með þessum tveimur skýrslum hefur verið lagður grunnur til þess að fylgjast með þróun kynjaskiptingar ákvörðunar- og áhrifavalds innan orkugeirans næstu árin.

Hér má nálgast skýrsluna.

Félagið Konur í orkumálum gefur út skýrslu um stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi á tveggja ára fresti. Skýrslan, sem unnin er af EY, varpar ljósi á stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi, sem löngum hefur verið karllægur.

Smelltu hér til að lesa skýrsluna

Félagið Konur í orkumálum gefur út skýrslu um stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi á tveggja ára fresti. Skýrslan, sem unnin er af EY, varpar ljósi á stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi, sem löngum hefur verið karllægur.

Smelltu hér til að lesa skýrsluna
crossmenuarrow-down linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram