Félagið Konur í orkumálum (KÍO) mælir nú í fjórða sinn líðan starfsfólks í orku- og veitugeiranum. Könnunin er send á allt starfsfólk stærstu orku- og veitufyrirtækja landsins. Könnunin er líkt og áður framkvæmd af Prósent og er send á allt starfsfólk orku- og veitufyrirtækjanna. Opnað verður fyrir könnunina 8. maí og stendur hún yfir í tvær vikur. Niðurstöðurnar verða kynntar á viðburði KÍO í haust.

Könnunin er liður í því að kanna stöðu jafnréttismála innan fyrirtækjanna og opna á samtal um framtíðarsýn öllum kynjum til hagsbóta. Góð þátttaka skiptir miklu máli til að fá fram skoðun sem flestra og skapa þannig tækifæri til áhrifa og umbóta í okkar starfsumhverfi. Við hvetjum ykkur því öll til að taka þátt og þökkum RARIK fyrir stuðninginn við gerð könnunarinnar. 

Selma Svavarsdóttir, nýkjörinn formaður stjórnar KÍO

Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður hjá Landsvirkjun, var kjörin formaður stjórnar Kvenna í orkumálum (KÍO) á aðalfundi félagsins þann 22. apríl. Selma tekur við af Hildi Harðardóttur. 

Selma Svavarsdóttir, formaður stjórnar KÍO:

„Orku- og loftslagsmálin eru mál málanna núna. Það er ákaflega mikilvægt að efla hlut kvenna í orkugeiranum og tengslin þeirra á milli. Þótt margt hafi breyst til hins betra undanfarin ár er aðkallandi að grípa þau fjölmörgu tækifæri sem blasa við til að jafna hlut kynja og auka fjölbreytileikann. KÍO getur þannig gegnt lykilhlutverki í að auka bæði áhrif og sýnileika kvenna í þessum spennandi geira.“

Ásgerður Sigurðardóttir sérfræðingur hjá Landsvirkjun og Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri RARIK voru endurkjörnar í stjórn til næstu tveggja ára. Fjórir nýir meðstjórnendur voru kjörnir þær Ása Björk Jónsdóttir leiðtogi hjá Orkuveitunni, Marta Rós Karlsdóttir framkvæmdastýra Baseload Power á Íslandi, Rauan Meirbekova verkefnastjóri hjá Tæknisetri og Valdís Guðmundsdóttir verkefnastjóri hjá HS Orku. Í varastjórn voru kjörnar þær Elísabet Ýr Sveinsdóttir framkvæmdastjóri hjá RARIK, Heiða Halldórsdóttir framkvæmdastjóri og Helga Kristín Jóhannsdóttir viðskiptaþróunarstjóri hjá Orku náttúrunnar.

Hildur Harðardóttir, fráfarandi formaður stjórnar KÍO:

“Eins og vitur kona sagði þá er jafnrétti ekki trúarbrögð. Það þarf að vinna að jafnréttismálum, inngildingu og fjölbreytileika með virkum hætti í daglegri starfsemi en það getur krafist hugrekkis. Ég tel að KÍO sé innblástur hugrekkis og með þessar flottu stjórnarkonur í framlínunni þá trúi ég að öflugt starf sé framundan hjá félaginu.”

Hlutverk KÍO er að efla þátt kvenna í orkumálum, styrkja tengsl þeirra og auka áhrif innan orku- og veitugeirans. Félagið er opið öllum þeim sem vilja stuðla að jafnrétti og fjölbreytileika í atvinnugreininni og sýna það í verki.

Búbblur, blóm, dansupplifun og besti félagsskapurinn á árshátíð KÍO! Skráning fer vel af stað og stefnir í frábært kvöld. Takið þátt í gleðinni og tryggið ykkur miða hér: https://forms.gle/qHCLxdRcwos9g4Z46

Samorka býður félögum KÍO í heimsókn miðvikudaginn 10. apríl kl. 16.30. 

Samorka kynnir starfsemi sína og fer yfir þau orku- og veitumál sem eru efst á baugi samtakanna og býður í líflegt spjall um þessi mál. 

Þetta er gleðistund með faglegu ívafi og vonandi sjá sem flest tækifæri til að mæta!

Skráningar er óskað svo hægt sé að áætla veitingar: https://forms.gle/WUkuNvPW4tupuChHA 

KÍO býður félagsfólki sínu að hlusta á áhugaverð erindi starfsmanna Orkuveitunnar um jarðvá á Reykjanesskaga og orkumál.
Boðið verður upp á hádegismat. Takmarkað pláss í boði, vinsamlegast skráðu þátttöku þína.

Hvenær: 16. apríl kl. 11:30 – 13:00

Hvar: Gamla rafstöðin í Elliðaárstöð, Rafstöðvarvegur 6

Skráning: https://shorturl.at/aoAJ9

Dagskrá

Rekstraröryggi ON og Veitna
Sigrún Tómasdóttir
Auðlindaleiðtogi vatns-og fráveitu

Er mögulegt að tengja saman kerfi Veitna og HS Veitna?
Hrefna Hallgrímsdóttir
Forstöðumaður hitaveitu Veitna

Hvernig höfum við aðstoðað og hvað getum við gert?
Reynir Guðjónsson
Öryggisstjóri Orkuveitunnar

Það er löngu þekkt að kynjajafnrétti er góður „business“ og fjölbreytt teymi eru líklegust til nýsköpunar og árangurs. Orku- og veitugeirinn sem og tæknigeirinn eru vaxandi atvinnugreinar og gegna veigamiklu hlutverki í sjálfbærri þróun samfélagsins. Það er því ávinningur okkar allra að þessir vinnustaðir fari ekki á mis við helming þess vinnuafls, krafta og þekkingar sem í landinu býr. 

Konur í orkumálum, Vertonet samtök kvenna og kvára í upplýsingatækni og Arion banki buðu til 25% dagsins þann 29. febrúar. Hlaupár og konur í þessum atvinnugeirum eiga það sameiginlegt að vera aðeins um 25% heildarinnar og því var kjörið að bjóða til samtals þennan dag með reynslumiklum stjórnendum og sérfræðingum.

Á fundinum var farið yfir hvaða áskorunum þessir karllægu geirar standa frammi fyrir en fyrst og fremst hvað hægt er að gera til þess að auka hlutfall kvenna og gera starfsumhverfið eftirsóknarvert fyrir fjölbreyttan hóp fólks.

Erindi fluttu Snædís Ögn Flosadóttir forstöðumaður Markaða hjá Arion banka, Magnús Þór Ásmundsson forstjóri RARIK, Ægir Már Þórisson forstjóri Advania, Alma Dóra Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri HEIMA og sérfræðingur í jafnréttismálum. Ásdís Eir Símonardóttir, mannauðs- og stjórnendaráðgjafi tók svo þátt í pallborðsumræðum. Guðrún Einarsdóttir stýrði fundinum og flutti hugvekju. 

Hugrekki til að breyta

Á fundinum kom fram að það er ekki nóg  að trúa á jafnrétti og styðja það, það þarf að vinna að því með virkum hætti í daglegri starfsemi, fjarlægja fyrirstöður og tryggja jöfn tækifæri. Það krefst þó hugrekkis að setja jafnréttismál á dagskrá alla daga, að mæta eigin fordómum og hlutdrægni, að hugsa út fyrir kassann og þægindaramman til þess að bera kennsl á hverju þarf að breyta og hvað má bæta svo öll hafi sömu tækifæri og aðgengi. 

Góð vinnustaðamenning er samstarfsverkefni allra en forystan þar að bera ábyrgð og ganga á undan með góðu fordæmi og mikilvægi fyrirmynda kom skýrt fram á fundinum. Fyrirmyndir og ímynd fyrirtækja skiptir gríðarlegu máli í nýliðun og fjölbreytileika innan þessara karllægu atvinnugreina. Kynningarátak og hvatar sem fjölga konum í námsgreinum þar sem kynjahallinn er mikill geta líka skipt sköpum.

Það kom einnig fram að það dugar skammt að beita einungis kynjagleraugum í ráðningarferlum heldur þarf að greina og bæta starfsumhverfið með tilliti til þess að halda í konurnar, auka starfsánægju kvenna og styðja þær til árangurs og áhrifa.

Síðast en ekki síst var lögð áhersla á að breyta þarf karllægri orðanotkun og orðræðu. Tungumálið spilar lykilhlutverk í inngildingu og í að hlúa að fjölbreytileika á vinnustöðum. Það skiptir máli hvaða orð við notum og notum ekki og þar ber hver einstaklingur ábyrgð á því að vera meðvitaður og rýna til gagns.

Hér má sjá svipmyndir frá deginum. Ljósmyndari: Jón Snær Ragnarsson.

Við leiðréttum skekkjuna í tímatali okkar með hlaupársdeginum 29. febrúar fjórða hvert ár. Hlaupár samsvarar hlutfalli kvenna í atvinnugreinum tækni og orku en konur eru einungis um 25% af starfsfólki geiranna hér á landi. En hvernig leiðréttum við þá skekkju?

Konur í orkumálum, Vertonet, samtök kvenna og kvára í upplýsingatækni, og Arion banki bjóða til samtals með reynslumiklum stjórnendum og sérfræðingum um hvaða áskorunum þessir karllægu geirar standa frammi fyrir en fyrst og fremst hvað er hægt að gera til þess að auka hlutfall kvenna og gera starfsumhverfið eftirsóknarvert fyrir fjölbreyttan hóp fólks.

Vertu með okkur á 25% deginum og taktu strákana í þínu umhverfi með til að við getum öll lært að hlúa að góðu vinnuumhverfi með jafnréttisgleraugum.

Frítt er á viðburðinn, en vinsamlegast skráðu þátttöku hér: https://shorturl.at/fhX37

DAGSKRÁ

08:45 – Húsið opnar og morgunhressing á boðstólum.

09:00 – Ávarp fundarstjóra.
Guðrún Einarsdóttir ráðgjafi fer yfir stöðuna í dag, helstu áskoranir og hvar tækifærin liggja.

09:10 – Jöfnum leikinn og stækkum kökuna
Snædís Ögn Flosadóttir, forstöðumaður á Mörkuðum Arion banka, segir frá verkefninu Konur fjárfestum.

09:20 – ,,Við erum allir ánægðir hjá RARIK!”
Magnús Þór Ásmundsson forstjóri RARIK ræðir um ímynd, vinnustaðamenningu o.fl. er varðar jafnrétti og fjölbreytileika í karllægum geira.

09:35 – Að rjúfa 30% múrinn
Ægir Már Þórisson forstjóri Advania fer yfir áskoranir félagsins í tengslum við að auka hlut kvenna hjá Advania, hvað hefur virkað, hvað ekki og hvernig Advania hefur nálgast jafnréttismálin hjá sér á síðastliðnum árum.

09:50 – Valdefling kvenna í karllægum geirum
Alma Dóra Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri HEIMA og sérfræðingur í jafnréttismálum fjallar um hvernig sé hægt að valdefla og fjölga konum á karllægum vinnustöðum.

10:05 – Pallborðsumræður

Guðrún Einarsdóttir stýrir pallborðsumræðum með ræðufólki ásamt Ásdísi Eir Símonardóttur, mannauðs- og stjórnendaráðgjafa.

Vel heppnað nýársþing KÍO undir heitinu Trúnó á nýju ári var haldið í samstarfi við Veitur á Á Bístró í Elliðaárstöð. Fundurinn var einlægur og opinskár þar sem m.a. var rætt hvernig hægt er að hreyfa við óskrifuðum venjum og viðhorfum og með hvaða hætti hægt sé að virkja tengslanetið til árangurs.

Heiðursgestur fundarins var Elíza Reid rithöfundur, frumkvöðull og forsetafrú. Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri Rarik, Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdarstjóri Landsnets tóku þátt í pallborði og Birna Bragadóttir forstöðukona Elliðaárstöðvar stýrði fundinum.

Elíza hefur með eftirtektarverðum hætti nýtt áhrif sín til að hrista upp í rótgrónum venjum og hugmyndum, samanber grein hennar sem birtist í New York Times um það óskilgreinda hlutverk sem maki þjóðhöfðingja hefur.

Elíza er ekki bara jafnréttisinni í orði heldur líka á borði. Hún hefur beint kastljósinu að konum og lyft þeim upp t.d. með bók sinni Sprakkar (mæli með lestri) sem kom út árið 2021 um allan heim. Þar ræddi hún við breiðan hóp kvenna frá ólíkum stéttum, uppruna og bakrunns á Íslandi. Konur sem hafa hreyft við málum í átt að forystu og jafnrétti á Íslandi. Sumar þekktar konur en einnig óþekktar konur, óþekkar konur, hugrakkar konur, hugsandi konur, brautryðjendur, forystukonur, hvunndagshetjur og Sprakka. Konur sem hafa staðið saman og haft áhrif á samfélag sitt og hreyft við málum í átt að forystu og jafnrétti.

Að pallborði loknu tók við vinnustofa þar sem unnið var með aðgerðir í átt að auknu jafnrétti og fjölbreytileika.
Stjórn KÍO þakkar öllum sem mættu og tóku þátt í fundinum fyrir góðar umræður. Einnig þökkum við Veitum fyrir að styðja við viðburðinn. Það er ljóst að kraftur kvenna í orku-og veitumálum er komin til að vera!

Myndir hér að neðan tók Jóhanna Rakel Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Félagar KÍO eru hjartanlega velkomin á Trúnó á nýju ári þriðjudaginn 23. janúar kl. 16:00-18:00 á Á Bístró í Elliðaárstöð.

Okkar magnaða forsetafrú Eliza Reid ætlar að blása okkur byr í brjóst. Þá ætlum við að ræða hvernig við getum hreyft við óskrifuðum venjum og viðhorfum og staðið saman og virkjað tengslanetið okkar til árangurs. Fordrykkur og biti verður í boði Veitna. 

Vinsamlega skráðu þátttöku þína þar sem sætafjöldi er takmarkaður: https://forms.gle/thYKnjS746QKGeUo9

Kvennaverkfallsdagurinn 24. október er baráttudagur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði. Að því tilefni bauð KÍO til samstöðukaffis á Á Bistró í Elliðaárstöð. Félagsfólki var boðið upp á kaffi og croissat í boði Orkuveitunnar. Það var frábær mæting, gleði og hugur í fólki sem hélt svo saman á útifundinn við Arnarhól.

Í dag gefum við, Konur í orkumálum, út fjórðu skýrsluna um áhrifa- og ákvörðunarvald kvenna í 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi. Skýrslan er gefin út annað hvert ár í samstarfi við EY og kom fyrst út árið 2017.

Í hverri skýrslu er valið eitthvað ákveðið málefni til þess að skoða enn frekar og í ár völdum við að skoða hver tækifærin hafa verið til þess að jafna kynjahlutfallið í efsta stjórnendalagi síðustu tvö ár. Við skoðuðum einnig kyn forvera núverandi stjórnenda til þess að athuga hvort einhver fylgni væri og hvort að mýtan sé sönn um það að konur taki við af konum. Við skoðuðum einnig aldur stjórnenda.

Þrátt fyrir margar jákvæðar breytingar í gegnum árin sýna niðurstöðurnar í ár ákveðna kyrrstöðu og jafnvel afturför hvað varðar kynjajafnvægi í helstu áhrifastöðum atvinnugreinarinnar.

Aðeins ein kona gegnir stöðu æðsta stjórnanda í 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi og er það sama hlutfall og fyrir tveimur árum. Á þessu tímabili hefur þó verið ráðið í að minnsta kosti fimm stöður æðstu stjórnenda. Hlutfall kvenna og karla í stjórnum fyrirtækjanna er áfram nánast jafnt, en hlutfall kvenkyns stjórnarformanna lækkar um 25% frá árinu 2020 og eru nú þriðjungur þeirra. Ákvörðunarvald og ábyrgð kvenna innan atvinnugreinarinnar telst samanlagt hafa farið úr 36 prósentustigum niður í 32 á tveimur árum. 

Við teljum það vissulega vera vonbrigði að tölurnar hafi breyst til hins verra á milli ára þrátt fyrir að tækifæri hafi verið til að jafna hlut kynjanna í æðstu stöðum innan geirans. En góðu fréttirnar eru þó þær að við sjáum örla á breytingum í nánustu framtíð í helstu áhrifastöðum innan fyrirtækjanna, því á aldursbilinu 30-44 ára eru tvöfalt fleiri kvenkyns en karlkyns framkvæmdastjórar. Það gefur vonir um að þær færist til enn frekari áhrifa með tímanum.

Til þess að metnaðarfullar breytingar gerist hraðar þurfa fyrirtæki að setja sér markmið um að fjölga konum í stjórnunarstöðum og að halda þeim kvenkyns leiðtogum sem starfa hjá þeim nú þegar. Það er hagur allra að það sé fjölbreyttur hópur einstaklinga sem komi að ákvörðunum og hafi áhrif á orku- og veitugeirann.

Í skýrslunni í ár birtum við einnig virkilega áhugavert viðtal við Dr. Ástu Dís Óladóttur sem rýndi niðurstöður skýrslunnar en Ásta hefur einmitt rannsakað stöðu kvenna í hlutverki æðstu stjórnenda á Íslandi. Meðal annars segir Ásta:

,,Skekkjur eru aldrei ásættanlegar og í flestum atvinnugreinum hér á landi er hægt að jafna kynjahlutföll sé vilji fyrir hendi, því jafnrétti er ekkert annað en ákvörðun.“

Helstu niðurstöður skýrslunnar 2023

Félagið Konur í orkumálum gefur út skýrslu um stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi á tveggja ára fresti. Skýrslan, sem unnin er af EY, varpar ljósi á stöðu kvenna í orku- og veitugeiranum á Íslandi, sem löngum hefur verið karllægur. Hér að neðan er að finna fjórðu skýrslu félagsins.

crossmenuarrow-down linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram