Nýr formaður og stjórn KÍO 2024-2026

24. apríl 2024
Selma Svavarsdóttir, nýkjörinn formaður stjórnar KÍO

Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður hjá Landsvirkjun, var kjörin formaður stjórnar Kvenna í orkumálum (KÍO) á aðalfundi félagsins þann 22. apríl. Selma tekur við af Hildi Harðardóttur. 

Selma Svavarsdóttir, formaður stjórnar KÍO:

„Orku- og loftslagsmálin eru mál málanna núna. Það er ákaflega mikilvægt að efla hlut kvenna í orkugeiranum og tengslin þeirra á milli. Þótt margt hafi breyst til hins betra undanfarin ár er aðkallandi að grípa þau fjölmörgu tækifæri sem blasa við til að jafna hlut kynja og auka fjölbreytileikann. KÍO getur þannig gegnt lykilhlutverki í að auka bæði áhrif og sýnileika kvenna í þessum spennandi geira.“

Ásgerður Sigurðardóttir sérfræðingur hjá Landsvirkjun og Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri RARIK voru endurkjörnar í stjórn til næstu tveggja ára. Fjórir nýir meðstjórnendur voru kjörnir þær Ása Björk Jónsdóttir leiðtogi hjá Orkuveitunni, Marta Rós Karlsdóttir framkvæmdastýra Baseload Power á Íslandi, Rauan Meirbekova verkefnastjóri hjá Tæknisetri og Valdís Guðmundsdóttir verkefnastjóri hjá HS Orku. Í varastjórn voru kjörnar þær Elísabet Ýr Sveinsdóttir framkvæmdastjóri hjá RARIK, Heiða Halldórsdóttir framkvæmdastjóri og Helga Kristín Jóhannsdóttir viðskiptaþróunarstjóri hjá Orku náttúrunnar.

Hildur Harðardóttir, fráfarandi formaður stjórnar KÍO:

“Eins og vitur kona sagði þá er jafnrétti ekki trúarbrögð. Það þarf að vinna að jafnréttismálum, inngildingu og fjölbreytileika með virkum hætti í daglegri starfsemi en það getur krafist hugrekkis. Ég tel að KÍO sé innblástur hugrekkis og með þessar flottu stjórnarkonur í framlínunni þá trúi ég að öflugt starf sé framundan hjá félaginu.”

Hlutverk KÍO er að efla þátt kvenna í orkumálum, styrkja tengsl þeirra og auka áhrif innan orku- og veitugeirans. Félagið er opið öllum þeim sem vilja stuðla að jafnrétti og fjölbreytileika í atvinnugreininni og sýna það í verki.

crossmenuarrow-downarrow-leftarrow-right linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram