Það er löngu þekkt að kynjajafnrétti er góður „business“ og fjölbreytt teymi eru líklegust til nýsköpunar og árangurs. Orku- og veitugeirinn sem og tæknigeirinn eru vaxandi atvinnugreinar og gegna veigamiklu hlutverki í sjálfbærri þróun samfélagsins. Það er því ávinningur okkar allra að þessir vinnustaðir fari ekki á mis við helming þess vinnuafls, krafta og þekkingar sem í landinu býr.
Konur í orkumálum, Vertonet samtök kvenna og kvára í upplýsingatækni og Arion banki buðu til 25% dagsins þann 29. febrúar. Hlaupár og konur í þessum atvinnugeirum eiga það sameiginlegt að vera aðeins um 25% heildarinnar og því var kjörið að bjóða til samtals þennan dag með reynslumiklum stjórnendum og sérfræðingum.
Á fundinum var farið yfir hvaða áskorunum þessir karllægu geirar standa frammi fyrir en fyrst og fremst hvað hægt er að gera til þess að auka hlutfall kvenna og gera starfsumhverfið eftirsóknarvert fyrir fjölbreyttan hóp fólks.
Erindi fluttu Snædís Ögn Flosadóttir forstöðumaður Markaða hjá Arion banka, Magnús Þór Ásmundsson forstjóri RARIK, Ægir Már Þórisson forstjóri Advania, Alma Dóra Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri HEIMA og sérfræðingur í jafnréttismálum. Ásdís Eir Símonardóttir, mannauðs- og stjórnendaráðgjafi tók svo þátt í pallborðsumræðum. Guðrún Einarsdóttir stýrði fundinum og flutti hugvekju.
Á fundinum kom fram að það er ekki nóg að trúa á jafnrétti og styðja það, það þarf að vinna að því með virkum hætti í daglegri starfsemi, fjarlægja fyrirstöður og tryggja jöfn tækifæri. Það krefst þó hugrekkis að setja jafnréttismál á dagskrá alla daga, að mæta eigin fordómum og hlutdrægni, að hugsa út fyrir kassann og þægindaramman til þess að bera kennsl á hverju þarf að breyta og hvað má bæta svo öll hafi sömu tækifæri og aðgengi.
Góð vinnustaðamenning er samstarfsverkefni allra en forystan þar að bera ábyrgð og ganga á undan með góðu fordæmi og mikilvægi fyrirmynda kom skýrt fram á fundinum. Fyrirmyndir og ímynd fyrirtækja skiptir gríðarlegu máli í nýliðun og fjölbreytileika innan þessara karllægu atvinnugreina. Kynningarátak og hvatar sem fjölga konum í námsgreinum þar sem kynjahallinn er mikill geta líka skipt sköpum.
Það kom einnig fram að það dugar skammt að beita einungis kynjagleraugum í ráðningarferlum heldur þarf að greina og bæta starfsumhverfið með tilliti til þess að halda í konurnar, auka starfsánægju kvenna og styðja þær til árangurs og áhrifa.
Síðast en ekki síst var lögð áhersla á að breyta þarf karllægri orðanotkun og orðræðu. Tungumálið spilar lykilhlutverk í inngildingu og í að hlúa að fjölbreytileika á vinnustöðum. Það skiptir máli hvaða orð við notum og notum ekki og þar ber hver einstaklingur ábyrgð á því að vera meðvitaður og rýna til gagns.