Vel heppnað nýársþing KÍO undir heitinu Trúnó á nýju ári var haldið í samstarfi við Veitur á Á Bístró í Elliðaárstöð. Fundurinn var einlægur og opinskár þar sem m.a. var rætt hvernig hægt er að hreyfa við óskrifuðum venjum og viðhorfum og með hvaða hætti hægt sé að virkja tengslanetið til árangurs.
Heiðursgestur fundarins var Elíza Reid rithöfundur, frumkvöðull og forsetafrú. Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri Rarik, Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdarstjóri Landsnets tóku þátt í pallborði og Birna Bragadóttir forstöðukona Elliðaárstöðvar stýrði fundinum.
Elíza hefur með eftirtektarverðum hætti nýtt áhrif sín til að hrista upp í rótgrónum venjum og hugmyndum, samanber grein hennar sem birtist í New York Times um það óskilgreinda hlutverk sem maki þjóðhöfðingja hefur.
Elíza er ekki bara jafnréttisinni í orði heldur líka á borði. Hún hefur beint kastljósinu að konum og lyft þeim upp t.d. með bók sinni Sprakkar (mæli með lestri) sem kom út árið 2021 um allan heim. Þar ræddi hún við breiðan hóp kvenna frá ólíkum stéttum, uppruna og bakrunns á Íslandi. Konur sem hafa hreyft við málum í átt að forystu og jafnrétti á Íslandi. Sumar þekktar konur en einnig óþekktar konur, óþekkar konur, hugrakkar konur, hugsandi konur, brautryðjendur, forystukonur, hvunndagshetjur og Sprakka. Konur sem hafa staðið saman og haft áhrif á samfélag sitt og hreyft við málum í átt að forystu og jafnrétti.
Að pallborði loknu tók við vinnustofa þar sem unnið var með aðgerðir í átt að auknu jafnrétti og fjölbreytileika.
Stjórn KÍO þakkar öllum sem mættu og tóku þátt í fundinum fyrir góðar umræður. Einnig þökkum við Veitum fyrir að styðja við viðburðinn. Það er ljóst að kraftur kvenna í orku-og veitumálum er komin til að vera!
Myndir hér að neðan tók Jóhanna Rakel Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur.