Staða kvenna í orku- og veitugeiranum 2023

27. september 2023

Í dag gefum við, Konur í orkumálum, út fjórðu skýrsluna um áhrifa- og ákvörðunarvald kvenna í 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi. Skýrslan er gefin út annað hvert ár í samstarfi við EY og kom fyrst út árið 2017.

Í hverri skýrslu er valið eitthvað ákveðið málefni til þess að skoða enn frekar og í ár völdum við að skoða hver tækifærin hafa verið til þess að jafna kynjahlutfallið í efsta stjórnendalagi síðustu tvö ár. Við skoðuðum einnig kyn forvera núverandi stjórnenda til þess að athuga hvort einhver fylgni væri og hvort að mýtan sé sönn um það að konur taki við af konum. Við skoðuðum einnig aldur stjórnenda.

Þrátt fyrir margar jákvæðar breytingar í gegnum árin sýna niðurstöðurnar í ár ákveðna kyrrstöðu og jafnvel afturför hvað varðar kynjajafnvægi í helstu áhrifastöðum atvinnugreinarinnar.

Aðeins ein kona gegnir stöðu æðsta stjórnanda í 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi og er það sama hlutfall og fyrir tveimur árum. Á þessu tímabili hefur þó verið ráðið í að minnsta kosti fimm stöður æðstu stjórnenda. Hlutfall kvenna og karla í stjórnum fyrirtækjanna er áfram nánast jafnt, en hlutfall kvenkyns stjórnarformanna lækkar um 25% frá árinu 2020 og eru nú þriðjungur þeirra. Ákvörðunarvald og ábyrgð kvenna innan atvinnugreinarinnar telst samanlagt hafa farið úr 36 prósentustigum niður í 32 á tveimur árum. 

Við teljum það vissulega vera vonbrigði að tölurnar hafi breyst til hins verra á milli ára þrátt fyrir að tækifæri hafi verið til að jafna hlut kynjanna í æðstu stöðum innan geirans. En góðu fréttirnar eru þó þær að við sjáum örla á breytingum í nánustu framtíð í helstu áhrifastöðum innan fyrirtækjanna, því á aldursbilinu 30-44 ára eru tvöfalt fleiri kvenkyns en karlkyns framkvæmdastjórar. Það gefur vonir um að þær færist til enn frekari áhrifa með tímanum.

Til þess að metnaðarfullar breytingar gerist hraðar þurfa fyrirtæki að setja sér markmið um að fjölga konum í stjórnunarstöðum og að halda þeim kvenkyns leiðtogum sem starfa hjá þeim nú þegar. Það er hagur allra að það sé fjölbreyttur hópur einstaklinga sem komi að ákvörðunum og hafi áhrif á orku- og veitugeirann.

Í skýrslunni í ár birtum við einnig virkilega áhugavert viðtal við Dr. Ástu Dís Óladóttur sem rýndi niðurstöður skýrslunnar en Ásta hefur einmitt rannsakað stöðu kvenna í hlutverki æðstu stjórnenda á Íslandi. Meðal annars segir Ásta:

,,Skekkjur eru aldrei ásættanlegar og í flestum atvinnugreinum hér á landi er hægt að jafna kynjahlutföll sé vilji fyrir hendi, því jafnrétti er ekkert annað en ákvörðun.“

Helstu niðurstöður skýrslunnar 2023

  • Ákvörðunarvald og ábyrgð kvenna hefur farið úr 36 prósentustigum niður í 32%
  • Ennþá gegnir aðeins ein kona stöðu æðsta stjórnanda í þessum 12 fyrirtækjum úrtaksins
  • Frá síðustu útgáfu hafa fimm nýir forstjórar verið ráðnir, fjórir karlar en einungis ein kona
  • Tækifæri voru til að ráða fleiri konur í framkvæmdastjórn á síðustu 2 árum en í staðinn lækkaði hlutfall kvenna
  • Kvenkyns stjórnarformönnum hefur fækkað um 25%, eru nú aðeins þriðjungur
  • Enginn kvenkyns framkvæmdastjóri yfir 60 ár
  • Tvöfalt fleiri kvk en kk framkvæmdastjórar á aldursbilinu 30-44 ára
  • Vísbendingar um að forveri sé viðmið í ráðningum
crossmenuarrow-downarrow-leftarrow-right linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram