Fjölmiðlalykill KÍO 2023

25. maí 2023

Konur eru um 40% viðmælenda í fréttum ljósvakamiðla um orku- og veitumál samkvæmt niðurstöðum Fjölmiðlalykils KÍO fyrir árið 2022 sem við birtum nú í annað sinn og byggja gögnin á greiningu Fjölmiðlavaktar Creditinfo.

Hlutfallið hækkar töluvert  frá síðasta Fjölmiðlalykli KÍO frá árinu 2018 þegar það var aðeins um 30%.

Í fréttum sem fjalla um orku- og veitumál hefur hlutfall kvenkyns viðmælenda hækkað úr 29% í 39% frá árinu 2018. Í fréttum þar sem fjallað er beint um orku- og veitufyrirtæki hækkaði hlutfallið úr 36% upp í 41%.

Frá stofnun hefur markmið KÍO verið að vekja athygli á stöðu jafnréttismála og mikilvægi fjölbreytileika innan orku- og veitugeirans. Það er því fagnaðarefni að sjá kvenkyns viðmælendum fjölga umtalsvert í fréttum um atvinnugreinina enda er sérþekking og reynsla kvenna mjög mikilvæg fyrir orkugeirann og því er sjálfsagt að það endurspeglist í umfjöllun um orkumál.  
Orku- og veitugeirinn hefur löngum þótt karllægur geiri en það hefur verið að breytast hratt á síðustu árum. Fyrirmyndir skipta máli til að gera orkugeirann að spennandi starfsvettvangi fyrir ungar konur og sýnileiki kvenna í fjölmiðlum er mikilvægur liður í því.

Samkvæmt niðurstöðum Fjölmiðlalykilsins eru viðmælendur í öllum fréttum ljósvakamiðla, óháð atvinnugrein, í 58% tilfella karlmenn en konur í 42% tilfella. Því er því ánægjulegt að sjá að þær jákvæðu breytingar sem hafa átt sér stað á kynjahlutfalli bæði stjórnenda og sérfræðinga innan orkugeirans séu nú sýnilegar í fréttum og að atvinnugreinin sé nú nánast á pari við kynjahlutfall viðmælenda í fréttum almennt. Þrátt fyrir það væri að sjálfsögðu ákjósanlegt að sjá hlutföllin ennþá jafnari á milli kynja.

crossmenuarrow-downarrow-leftarrow-right linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram