Starfsánægja einkennir orku- og veitugeirann

20. desember 2022

Niðurstöður úr nýrri könnun Kvenna í orkumálum (KÍO) um líðan starfsfólks og stöðu jafnréttismála í orku- og veitugeiranum voru kynntar þann 7. desember síðastliðinn á viðburði félagsins í Ægisgarði. Þetta er í þriðja sinn sem könnunin er gerð og hafa fyrri niðurstöður gefið mikilvæga innsýn inn í líðan og starfsumhverfi kvenna sem starfa innan orkumála. Könnun var framkvæmd af Prósent og styrkt af Orkusölunni og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn.

Svona getur þú skoðað mælaborðið með niðurstöðum úr nýju könnuninni 2022 auk niðurstöðum úr könnuninni 2021.

Slóð fyrir innskráningu: https://login.qualtrics.com/login?lang=uk
Username: kio@kio.is
Password:
KonnunKIO2022

Sú nýbreytni var í ár að könnunin var send á öll kyn innan tólf stærstu fyrirtækjanna í geiranum í stað þess að senda eingöngu á félagskonur KÍO, þar sem eitt af markmiðunum var að skoða einnig muninn á milli kynja. Auk þess var nokkrum spurningum og bakgrunnsbreytum bætt við til þess að fá verðmætari gögn og meiri samanburð. Þannig aukast möguleikar til þess að ræða um hvað betur megi fara til þess að auka á jafnrétti í orkumálum í nafni fjölbreytileika.

Svarhlutfall í könnuninni var 51,2% eða 811 manns í orku- og veitugeiranum sem tóku þátt, því gefa niðurstöður góða mynd af stöðunni. Svarhlutfall fólks sem hvorki skilgreinir kyn sitt sem karl eða konu var ekki nógu hátt svo hægt væri að greina þann hóp sérstaklega að þessu sinni.

Niðurstöðurnar í hnotskurn

  • Orku- og veitugeirinn einkennist af starfsánægju, þekkingu og reynslu.
  • Auknu mannaforráði fylgir meiri starfsánægja.
  • Konur upplifa þverrandi tækifæri til þróunar í starfi og minni hvatningu með hækkandi aldri en karlar.
  • 30% starfsfólks hefur orðið fyrir misrétti s.s. að hafa verið höfð útundan, faglegt álit hundsað eða annar aðili fengið hrós eða viðurkenningu fyrir þeirra vinnu.
  • Konur verða frekar fyrir misrétti en karlar, en þróun þeirra miðað við fyrri kannanir er jákvæð
  • 10% starfsfólks segist hafa orðið fyrir einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni
  • Meirihluti starfsfólks telur sitt fyrirtæki vinna markvisst að jafnréttismálum
  • 2 af 10 vita ekki við hvern á að ræða innan fyrirtækisins ef upp koma neikvæð atvik
  • 28% bera ekki mikið traust til þeirra sem taka við upplýsingum um neikvæð atvik og þess ferlis sem tekur við.
  • Konur taka að meðaltali 10 mánuði í fæðingarorlof á móti 3 mánuðum hjá körlum

Á heildina litið jákvæð útkoma

Starfsánægja innan orku- og veitufyrirtækjanna er mikil samkvæmt niðurstöðunum samanborið við markaðinn í heild sinni, eða 8.2 af 10 mögulegum á meðan einkunn markaðarins er 7.7. Það sem einkennir geirann er hátt menntunarstig, mikil þekking og reynsla sem sjá má á því að um 40% svarenda hefur starfað innan geirans í 11 ár eða lengur.

Meirihluti starfsfólks telur sitt fyrirtæki vinna markvisst að því að bæta stefnu sína í jafnréttismálum og ekki er marktækur munur þar á milli kynja.

Niðurstöðurnar leiða í ljós að auknu mannaforráði fylgir meiri starfsánægja, aðeins 3% upplifa litla starfsánægju samanborið við 14% í iðnaðarstörfum og vinnuflokkum.

Meirihluti starfsfólks upplifir að öll innan fyrirtækisins hafi jöfn tækifæri og ekki sé mismunað eftir kyni, aldri eða þjóðerni. Ekki var marktækur munur á svörum kynjanna. Þó gefur elsti hópurinn lægri einkunn á meðan að starfsfólk með mannaforráð yfir 20 manns eða fleiri gefa jákvæðustu svörin.

Ánægja karla vegna svigrúms til sjálfstæðrar ákvarðanatöku í starfi var eilítið hærri en kvenna, en ekki marktækur munur. Þó er áhugavert að skoða niðurstöðuna út frá störfum sem fólk sinnir. Konur í almennum iðnaðarstörfum eru ánægðari en karlar í sömu störfum en vert að taka fram að eins og búast má við eru konur innan vinnuflokka miklu færri eða sjö konur á móti 100 körlum sem svara þessari könnun.

Aldur mikilvæg breyta

Annað sem vekur athygli og er nokkuð skýrt í niðurstöðunum er að ánægja kvenna yfir 55 ára aldri sem sinna skrifstofustörfum er almennt lægri en karla og yngri kvenna sem sinna öðrum störfum. Fleiri konur upplifa nú hvatningu til að leggja sig fram í starfi en fyrri niðurstöður gáfu til kynna. Hins vegar sýna niðurstöður í ár og fyrri ára að konur upplifa minni hvatningu með hækkandi aldri. Sömu neikvæðu þróun með hækkandi aldri kvenna má sjá í svörum við spurningu um tækifæri til faglegrar og persónulegrar þróunar í starfi. Þessi þróun er ekki á sama hátt til staðar hjá körlum.

Athygli vekur að eldri karlar upplifa sveigjanlegan vinnutíma og svigrúm til fjarvinnu minni en þeir yngri. Þarna var munur á milli kynja, þar sem konur upplifa meiri sveigjanleika en karlar í nánast öllum starfsflokkum.  

Greinileg tækifæri til úrbóta

Könnunin leiðir í ljós að tvö af hverjum tíu vita ekki við hvern á að ræða innan fyrirtækjanna ef upp koma neikvæð atvik og um 28% bera ekki mikið traust til þeirra sem taka við upplýsingum um neikvæð atvik og þess ferlis sem þá tekur við. Um fjórðungur kvenna gefur þessu lægstu einkunn.

Á heildina litið hefur 30% starfsfólks orðið fyrir misrétti í starfi s.s. að hafa verið höfð útundan eða faglegt álit hundsað eða að annar aðili hafi fengið hrós eða viðurkenningu fyrir þeirra vinnu. Þarna skora konur hærra, eða 36%. Það er þó þróun í rétta átt, en árið 2018 sögðust 43% kvenna hafa orðið fyrir misrétti. Þriðjungur kvenna hefur lent í einhverjum af þessum neikvæðu atvikum sem er hærra hlutfall en hjá körlum.

Einnig kemur í ljós að 10% starfsfólks segist hafa orðið fyrir óæskilegri hegðun, einelti, kynbundinni og kynferðislegri áreitni á sínum vinnustað sl. 12 mánuði. Af þeim sem hafa orðið fyrir óæskilegri hegðun hafa 5% kvenna orðið fyrir kynbundinni áreitni og ein kona og einn karlmaður hafa lent í kynferðislegri áreitni. Einnig hafa 4% karla (21 svör) og 2% kvenna (4 svör) orðið fyrir einelti og 2% karla (8 svör) hafa lenti í ofbeldi en engar konur segjast hafa lent í ofbeldi.

Að lokum var spurt út í töku fæðingarorlofs og sýndu niðurstöðurnar jafnt hlutfall kvenna og karla sem taka fæðingarorlof en þó töluverðan mun á lengd orlofsins, eða að meðaltali 10 mánuði hjá konum og þrjá mánuði hjá körlum. Viðhorf vinnuveitanda til fæðingarorlofstöku var almennt jákvætt. Benda má á að foreldrar fá samanlagt 12 mánuði í launað fæðingarorlof, sex mánuðir fyrir móður og sex mánuðir fyrir föður. Af því eru sex vikur framseljanlegar á milli foreldra. Engu að síður eru karlar í orkugeiranum einungis að taka tæpa þrjá mánuði af sínu fæðingarorlofi. Þessari tölu er mikilvægt að fylgjast með og viljum við sjá þessa tölu hækka þar sem foreldrar taka jafnari ábyrgð.

Líflegar umræður í pallborði

Það var virkilega ánægjulegt hve góð þátttaka var í pallborðsumræðum sem Birna Bragadóttir, stjórnarkona KÍO og forstöðukona Elliðaárstöðvar og Jarðhitasýningar stýrði en í pallborðið mættu þau Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdarstýra Veitna, Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar, Magnús Kristjánsson framkvæmdarstjóri Orkusölunnar, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir mannauðsstjóri HS Veitna, Gunnur Ýr Stefánsdóttir verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra hjá Norðurorku, Magnús Þór Ásmundsson forstjóri RARIK, Ingólfur Örn Guðmundsson forstöðumaður Sölu og viðskiptaþróun hjá ON og Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets.

Það var mikil ánægja meðal hópsins með könnunina og að í raun séu niðurstöðurnar jákvæðar þó greina megi tækifæri til úrbóta og virtist mikill vilji til þess að taka á þeim málum og auka fjölbreytileika innan orkumála.

Fyrirtækjunum sem tóku þátt í könnuninn gefst nú kostur á að fá niðurstöður fyrir sitt fyrirtæki sem þau geta síðan borið saman við fyrirtækin í orku og veitugeiranum. Við hvetjum fyrirtækin til að kynna niðurstöðurnar fyrir starfsfólk sínu og nýta niðurstöðurnar sem tól til að vinna markvisst í að efla sig í jafnréttis- og fjölbreytileika.

Í lok pallborðsins kom fram að Konur í orkumálum munu hvetja stjórnendur þessara fyrirtækja áfram í að láta verkin tala og vinna áfram að jafnrétti og betri líðan starfsfólks í geiranum. Að hálfu ári liðnu mun stjórn KÍO senda spurningalista til forsvarsfólks fyrirtækjanna sem tóku þátt í könnuninni til að spyrja hvernig þau hafa nýtt sér niðurstöður könnunarinnar og til hvaða aðgerða þau hafa gripið til eða áforma að framkvæma. Þær niðurstöður verða dregnar saman og sagt frá hér.

Þökkum öllum kærlega fyrir þátttökuna í könnuninni í ár og hlökkum til að fylgjast með jákvæðum breytingum fram að næstu könnun árið 2024!

crossmenuarrow-downarrow-leftarrow-right linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram