Jafnrétti á dagskrá 75 ára afmælismálþings RARIK

22. september 2022

Hildur Harðardóttir, formaður KíO, sagði á afmælismálþingi RARIK á dögunum gríðarleg tækifæri felast í því fyrir fyrirtæki í orkugeiranum að leggja áherslu á fjölbreyttan starfshóp.

Frá afmælismálþingi RARIK í Hofi á Akureyri. Mynd: RARIK

RARIK efndi til afmælismálþinga á fjórum stöðum á landinu í tilefni af 75 ára afmæli fyrirtækisins undir yfirskriftinni Rafmagnið í lífi okkar – hreyfiafl landsbyggðar til framtíðar og var Hildur þar á meðal framsögufólk.
Á málþingunum var fjallað um helstu áskoranir raforkukerfisins um þessar mundir, eins og til dæmis orkuskipti, loftlagsmál, afhendingaröryggi, verðskrár, jafnrétti kynja og sjálfbærni.
Í erindi Hildar kom fram að rannsóknir sýni að fjölbreytni í starfshóp fyrirtækja, bæði hvað varðar kyn og annan breytileika, skilar sér í aukinni nýsköpun, skilvirkari stjórnarháttum, sterkari fjárhag og betri ákvarðanatöku sem axlar ábyrgð á loftslagsvandanum. Fjárfesting í kynjafjölbreytileika er því fjárfesting í sjálfbærni sem nær út fyrir fyrirtækin sjálf og til samfélagsins.

Hér má sjá erindi Hildar.

Hildur var ekki ein úr stjórn KíO sem fluttu erindi á málþingunum. Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir þróunarstjóri nýsköpunar og greininga hjá RARIK situr í stjórn KíO og fjallaði um uppbyggingu verðskrár og hvernig hún verði að endurspegla kostnað við flutning raforku.

Aðrir sem fluttu erindi á málþingunum voru Helga Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs RARIK og Kjartan Rolf Árnason deildarstjóri kerfisstýringar RARIK ásamt ávörpum frá forstjóra RARIK, Magnúsi Þór Ásmundssyni, og ráðstefnustjóranum og rithöfundinum Bergi Ebba Benediktssyni. Nánar um málþing RARIK og hlekkir á erindin má sjá á heimasíðu fyrirtækisins.

Silja Rán flytur erindi sitt.

Konur í orkumálum þakka RARIK fyrir að fá að taka þátt í þessum glæsilega afmælisáfanga og fyrir tækifærið að fá að segja frá félaginu vítt og breitt um landið ásamt því að minna á mikilvægi þess að vinna saman að jafnrétti í orkumálum.

crossmenuarrow-downarrow-leftarrow-right linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram