Kveðja frá formanni á nýju ári

11. janúar 2022

Gleðilegt nýtt ár kæra félagsfólk! Þá höfum við klárað annað ár þar sem við höfum þurft að aðlaga okkur að nýjum veruleika og gert það með stæl, að mínu mati. Við höfum haldið geiranum okkar gangandi án teljandi vandræða en við sinnum jú mikilvægu málefni og innviðum í þessu landi.

Það fór ekki mikið fyrir viðburðum í eigin persónu á árinu, en starfsemin var hins vegar ávallt í gangi, stjórnin vann ötullega að öðrum þáttum sín á milli og þá aðallega í stafrænum heimi. Við náðum þó að halda fjölmiðlanámskeið, þar sem þátttakendum voru kennd helstu atriði varðandi framkomu í fjölmiðlum, en við viljum jú auka sýnileika kvenna í orkugeiranum í fjölmiðlum. Þá fórum við í skemmtilega sumargöngu og heimsókn í Elliðaárstöð og sáum alla þá uppbyggingu sem þar á sér stað og þær framkvæmdir sem framundan eru.

Á liðnu ári kynntum við jafnframt niðurstöður úr rannsókn á líðan kvenna í orkumálum. Í henni kom skýrt fram hversu skemmtilegur geirinn okkar er, þar sem einkunnin 8.4 fékkst á meðal svarenda af 10 mögulegum, við spurningunni um starfsánægju félagskvenna og hafði hækkað frá síðustu könnun. Þess má geta að vísitala starfsánægju á meðal kvenna í atvinnulífinu er 7,8. Það var hins vegar mjög leitt að sjá að okkur hafði ekki tekist að breyta því mynstri sem einnig hafði komið fram í fyrri rannsókn varðandi neikvæðari upplifun þeirra sem hafa hvað mesta starfsreynslu innan geirans og jafnframt að enn virðist finnast áreiti og ójafnrétti innan geirans. Þess vegna vakti félagið sérstaka athygli á því og hvatti stjórnendur fyrirtækjanna til aðgerða til að bæta geirann okkar.  

Nú undir lok árs gáfum við út þriðju skýrslu félagsins um stöðu kvenna í orkugeiranum sem unnin var af EY Iceland. Það var mjög jákvætt og hvetjandi að geta sýnt grænar tölur, að tekist hafi að auka hlutfall stjórnarformanna í fyrirtækjunum sem könnunin tók til, framkvæmdastjóra og jafnframt hlutfall kvenna almennt í geiranum. Við bindum miklar vonir við að þessi þróun sé komin til að vera, að við náum jafnvæginu fljótt og að konur verði mun sýnilegri í efstu lögum þessara fyrirtækja á næstu árum.

Utan félagsstarfsins og markmiða þess eru jafnframt ákveðnir þættir sem standa upp úr að mínu mati á orkuárinu 2021. Áhersla var lögð á rafeldsneyti og tækifærin sem felast í því, matvælaframleiðslu með grænni orku, við stefndum enn nær orkuskiptunum, þ.e. því flotta markmiði okkar að verða fyrst til að verða óháð jarðefnaeldsneyti, ýttum undir raforkuöryggi, fönguðum kolefni og bættum regluverkið svo eitthvað sé nefnt. Mér hefur fundist ég finna að fólk sé orðið meðvitaðra um orkunotkun sína og bætta orkunýtingu sem verður að telja mikilvægt skref inn í framtíðina með tilliti til þróunar orkumála hérlendis og þá sérstaklega umhverfisins. Það er líka frábært að sjá hversu okkur hefur orðið framgengt hvað varðar hugmyndir almennings um orkugeirann, að hann sé órjúfanlegur hluti af umhverfismálunum.

Ég lít björtum augum á komandi orkuár og sé tækifærin í hverju horni. Við náum vonandi að halda ársfundinn okkar í eigin persónu og kjósa nýja stjórn með vorinu, halda árshátíð, viðburði og ráðstefnur. Með tækifærin öll, jákvætt hugarfar og þennan fjölbreytta og skemmtilega orkugeira getur nýja starfsárið ekki orðið annað en gott… þrátt fyrir Covid!

Með kveðju,

Harpa Pétursdóttir
Formaður Kvenna í orkumálum

crossmenuarrow-downarrow-leftarrow-right linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram