Fyrstu aðal- og ársfundir KíO

12. febrúar 2017

Fyrstu aðal- og ársfundir Kvenna í orkumálum voru haldnir þann 6. apríl sl. Aðalfundur var með hefðbundnu sniði þar sem formaður fór yfir starfsemi ársins og skýrslu stjórnar og gjaldkeri lagði fram reikninga félagsins til samþykktar. Þá var skoðunarmaður kosinn en aðeins eitt framboð var til skoðunarmanns og var Signý Sif Sigurðardóttir, forstöðumaður sjóðsstýringar hjá Landsvirkjun, því sjálfkjörin. Engar breytingar á samþykktum voru lagðar til og var það tillaga stjórnar að setja ekki á félagsgjöld að þessu sinni. Fundinum stýrði Elín Smáradóttir, stjórnarkona KíO.

Ársfundurinn var haldinn í kjölfarið og var hann einkar áhugaverður og líflegur. Íris Baldursdóttir, stjórnarkona KíO, fór yfir menntastefnu félagsins í litríku erindi sínu. Þá sagði Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri auðlinda hjá HS Orku, frá djúpborunarverkefni félagsins á Reykjanesi og vakti mikinn áhuga fundargesta. Þá flutti Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, bráðskemmtilegt erindi sitt um Lísu í Undarlandi og vísaði þar til upplifunar sinnar af orkugeiranum til þessa. Harpa Pétursdóttir, formaður KíO, opnaði að lokum heimasíðu félagsins en hún stýrði einnig fundi.

Eftir fundinn, sem haldinn var að Ofanleiti 2, bauð verkfræðistofan Verkís upp á veitingar. Stjórnin var að vonum ánægð með vel heppnaða fyrstu aðal- og ársfundi og góða mætingu.

crossmenuarrow-downarrow-leftarrow-right linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram